139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um samgöngumál er ekki verkefnaskortur. Það er skortur á því hjá ríkisstjórninni, eins og í svo mörgu öðru, að hefja framkvæmdir, að gera eitthvað í málum. Menn geta deilt um það hvaða verkefni af fjölmörgum eigi að fara í. En ágreiningurinn hjá ríkisstjórninni snýst um það að auka gjaldtökur, auka skatta á almenning til að standa undir framkvæmdum. Hæstv. innanríkisráðherra boðaði t.d. nokkra þingmenn Suðvesturkjördæmis og Suðurkjördæmis, ásamt sveitarstjórnarmönnum í Suðurkjördæmi, á sinn fund um daginn og var að reyna að fá hópinn til að sameinast um 200 kr. veggjald á allar leiðir út frá höfuðborgarsvæðinu, á Suðurland, Suðurnes, Vestur- og Norðurland. Um það náðist engin samstaða í þeim hópi.

Framkvæmdir sem áttu að fara af stað í kringum þetta átti að fjármagna með útgáfu ríkisskuldabréfa sem greiða átti með þessum sérstöku veggjöldum frá árinu 2016. Það liggur fyrir, virðulegur forseti, að við verðum að fara í heildarendurskoðun á því hvernig við ætlum að haga gjaldtöku á umferð í framtíðinni. Í okkar bílaflota bætast stöðugt bílar sem eru neyslugrennri, bílar sem nota annað en hefðbundið eldsneyti og greiða engin veggjöld. Þessu verður að breyta á næstu árum. Ég skil það ekki hjá hæstv. ríkisstjórn, með þær framkvæmdir sem hér um ræðir, af hverju ekki er hægt að fara af stað í þá atvinnusköpun og það öryggisatriði að efla samgöngur og efla þar með atvinnu á þessum vettvangi — síðan höfum við fimm ár til að fara yfir það hvernig við ætlum að skattleggja þetta í framtíðinni. Það kemur væntanlega ekki í hlut þessarar ríkisstjórnar að þurfa að hafa áhyggjur af því, við getum tekið það á okkur aðrir þingflokkar á þingi.

Aðalatriðið er að hefja framkvæmdir núna og svo höfum við fimm ár til að ákveða hvernig við ætlum að haga þessari skattheimtu í framtíðinni, hún verður ekki aukin í heild sinni.