139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Býsna góð og gagnleg umræða fór fram í gær um hin ýmsu mál er þingmenn telja að tengist þessu frumvarpi og einstökum greinum þess. Töluvert var rætt um breytingarnar út frá því að þingmenn margir hverjir telja að í þeim felist tilraun til að ná fram þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem stjórnarflokkarnir hafa ekki getað náð hingað til, þ.e. breytingum er lúta að því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Að sjálfsögðu er margt í frumvarpinu, sumt gott en annað getur sá er hér stendur ekki tekið undir með nokkru móti. Það er sérstaklega sá þáttur er lýtur að því að fela forsætisráðherra nánast gerræðisvald yfir því hvernig ráðuneytunum er fyrir komið og að forsætisráðherra geti tekið mál sem er í vinnslu í ráðuneyti ef það hefur ekki verið klárað þar og flutt yfir í annað ráðuneyti til að láta klára það þar. Það er mjög sérkennileg ráðstöfun að mínu viti. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem ég sagði varðandi tengsl þessa frumvarps og breytinganna við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu í þessari ræðu en ég stend hins vegar við hvert einasta orð sem ég sagði um þau tengsl og það mál.

Einnig var umræða um vinnubrögð við framlagningu þessa frumvarps í gær. Mig langar, frú forseti, að minnast aðeins á ræðu sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra flutti hér 13. júní 2007 þar sem hann sem þingmaður og jafnframt formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talaði um hvernig standa ætti að vinnu við slík mál. Í ræðunni vitnar hæstv. núverandi fjármálaráðherra í orð Bjarna Benediktssonar sem vann að því fyrir árið 1969 að endurskoða eða semja lög varðandi Stjórnarráðið. Þá segir hæstv. núverandi fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Hann flutti á Alþingi, þá sem stjórnarandstæðingur, tillögu — um að gera hvað? Að kjósa þverpólitíska nefnd til að reyna að vinna að samkomulagi að breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins. Það var gert. Það var undanfari þess að lög voru sett árið 1969 um breytingar á Stjórnarráðinu sem tóku gildi árið 1970. Arfleifð Bjarna Benediktssonar er því ekki sýndur mikill sómi af núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, þaðan af síður hefðum um að leita þverpólitísks samkomulags um mikilvæg mál af þessu tagi.“

Því hljótum við að auglýsa eftir því hvar hið þverpólitíska samkomulag eða samráð sem sitjandi ríkisstjórn hefur gumað af að ástunda er í þessu máli. Við sem höfum mætt á slíka þykjustusamráðsfundi þekkjum það vitanlega að þeim fylgir því miður ekki mikil alvara. Hér hefði verið kjörið tækifæri til að fá aðila úr öllum flokkum til að semja frumvarp það sem við höfum í höndunum til að reyna að ná einhverri samstöðu í málið í stað þess að koma með það inn í þingið í augljósri andstöðu við stóran hluta þingmanna og marga þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum. Það er mjög merkilegt að fara í þá vegferð, frú forseti. Ég undrast því að sú leið hafi verið valin og farin.

Ég hefði persónulega talið að nær væri að taka einfaldlega út úr þeim lögum er nú gilda þá heimild að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta. Ég held að það sé eðlilegt að Alþingi komi að því, ekki síst til að undirstrika löggjafarvald Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það kann vel að vera að það sé til hægðarauka fyrir forsætisráðherra á hverjum tíma að hafa vald til að dúlla sér við breytingar á ráðuneytunum eins og honum sýnist, en það er ekki til þess fallið að auka veg og vegferð Alþingis. (Forseti hringir.)