139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég gagnrýni vinnubrögð við þetta mál. Ég sagði það þegar við ræddum málið fyrst, ég man ekki hvenær það var, að nær hefði verið að hafa samráð milli stjórnmálaflokkanna um að leggja fram breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Það getur vel verið að meginefni þessa frumvarps hefði þá litið dagsins ljós. Það eru hins vegar ákveðnir þættir í því sem ég tel að sé og verði mikil andstaða við.

Við verðum að hafa í huga að árið 2007 voru gerðar talsverðar breytingar á lögum um Stjórnarráðið, ekki nærri því eins veigamiklar og þessar sem eru miklu ítarlegri en þær sem voru gerðar á sínum tíma, þá greiddu þingmenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna atkvæði á móti þeim breytingum. Nú er í rauninni gengið enn lengra. Það er verið að stíga skref sem er að mínu viti miklu stærra en var stigið 2007 og sumum þingmönnum sem ég er búinn að lesa ræður eftir þóttu þá nóg um og greiddu atkvæði á móti.

Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrri hvern einasta þingmann stjórnarandstöðunnar en eins og innihald frumvarpsins er nú og getur vitanlega tekið breytingum í meðförum nefndar — við vitum hvernig það er — þá get ég ekki séð að mikið fylgi sé við þetta mál, ekki síst ef það er sett í samræmi við atkvæðagreiðslu og ræður ársins 2007 þegar málið kom til afgreiðslu. En eins og ég sagði áðan greiddu þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna, þar á meðal þeir þingmenn Vinstri grænna sem mæltu fyrir málinu í gær, atkvæði gegn breytingunum sem þá voru gerðar.