139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það kom líka fram í umræðunni í gær hjá hæstv. forsætisráðherra að frumvarpið væri að einhverju leyti viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis og mundi auka hér skilvirkni og annað því um líkt. Það var mikið gagnrýnt í umræðunni í gær og reyndar víðar að frumvarpið gerði hið gagnstæða, að það ýtti frekar undir foringjaræði. Alþingi hefur til þessa haft vald til að skipa ráðuneyti og fleira. Mér er minnisstætt þegar Alþingi tók síðast út ákveðna þætti sem hæstv. forsætisráðherra hafði lagt til.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta frumvarp, eins og það er uppsett og sú hugsun sem þar býr að baki, vera (Forseti hringir.) viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis og því sem kallað var eftir í henni.