139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á nokkuð svipuðum slóðum og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Ég held að við getum reiknað með því, eins og þessi umræða hefur verið, a.m.k. fram til þessa, að í þinginu sé ekki nægur stuðningur við meginbreytinguna sem í frumvarpinu felst. Þar til annað kemur í ljós virðist það vera í kortunum að ekki sé nægur stuðningur við þá breytingu.

Ég heyrði hins vegar á máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þ.e. ég túlka orð hans með þeim hætti að hann telji ekki útilokað að einhverjar aðrar breytingar sem í frumvarpinu felist geti náð fram að ganga. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji — og ég er eiginlega að hugsa upphátt í þessu — að það sé hugsanlega líklegra til árangurs að þingið taki bara ákvörðun um það með einum eða öðrum hætti að ýta til hliðar þeirri breytingu á ráðuneytunum sem umdeildust er, setji hana bara út fyrir eins og gert var með atvinnuvegaráðuneytið í meðförum þingsins á síðasta ári og einbeiti sér í vinnu sinni á næstu vikum að því að laga til hinar greinarnar sem hægt er að byggja eitthvað á, sem eru nýtilegar og möguleiki á að geti náð fram að ganga með auðvitað einhverjum breytingum.

Ég spyr hv. þingmann um afstöðu til þessarar leiðar.