139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra biður um rökstuðning fyrir því að með þessu frumvarpi sé verið að færa aukið vald til hæstv. forsætisráðherra. Það ætti að nægja hæstv. forsætisráðherra að lesa einfaldlega eigið frumvarp vegna þess að þar er útskýrt hvernig verið er að fela hæstv. forsætisráðherra aukið vald, til að mynda er ljóst að ekki þarf að leita til þingsins þegar verkefni eru færð milli ráðuneyta eða ráðuneytin stokkuð upp. Með öðrum orðum, um hluti sem þingið hafði eitthvað að segja áður fær það ekkert að segja um núna. Þetta þýðir að verið er að taka vald frá þinginu og færa það til framkvæmdarvaldsins.

Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að það sé bull að með þessu sé verið að efla framkvæmdarvaldið á kostnað þingsins eða að þetta geti falið það í sér að verkefni verði færð frá ráðuneytunum. Ég vísa þá bara í ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem fór yfir þetta allt hér í gær. Heldur hæstv. forsætisráðherra því fram að ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn sé að bulla, fari með rangt mál, tóma vitleysu? Veit hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kannski ekkert um hvað þetta frumvarp snýst eða aðrir þeir þingmenn sem um það hafa fjallað hér í dag og í gær?

Hæstv. forsætisráðherra hélt því fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefðu komið hér upp í gær, sumir hverjir, og viljað ganga enn þá lengra. Ég veit bara um einn, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Aðrir sem um þetta töluðu gerðu verulega fyrirvara við þetta og raunar komu fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur töluverðir fyrirvarar við ýmsa þætti frumvarpsins þó að hún hafi viljað ganga lengra hvað aðra hluti varðar.