139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Veit hv. þingmaður að í sjö löndum sem við berum okkur saman við er svipað stjórnsýslu- og stjórnskipunarfyrirkomulag og við erum að koma á hér einmitt vegna sveigjanleika og hagræðingar í stjórnsýslunni og af því að menn telja að þetta sé skynsamlegra og betra fyrirkomulag? Er hægt að segja um lönd eins og Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Bretland, Írland, Þýskaland og Frakkland að þar ráði einhverjir einræðisherrar öllu þó að það sé sveigjanleiki í starfsháttum í stjórnarráði?

Auðvitað er það svo að ef breyta á verkefnum innan Stjórnarráðsins, fækka ráðuneytum eða sameina ráðuneyti, gerir forsætisráðherra það ekki einn. Hann gerir það í samráði við ráðherra í ríkisstjórn, hann gerir það í samráði við þá samstarfsflokka sem styðja hann á þingi. Þetta er auðvitað samráðsverkefni þeirra flokka sem fara með völd hverju sinni. Þannig er það bara (Forseti hringir.) en hv. þingmaður virðist ekki skilja það. Umræðan sem hér fer fram um nákvæmlega þá hluti sem frumvarpið gengur ekki út á er ótrúleg. Sú umræða sem hér fer fram gengur ekki út á efni frumvarpsins. Það er staðreynd málsins.