139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Johnsen endaði andsvar sitt á að leggja áherslu á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt samfélag. Það ætti náttúrlega að vera óumdeilt. Það er einfaldlega staðreynd sem ætti að blasa við hverjum sem er. Hins vegar gefur ekkert í þessum áformum ríkisstjórnarinnar eða fyrri tilraunum til að losna við ráðuneyti sjávarútvegsins, ég tala nú ekki um hvernig hæstv. forsætisráðherra talar um þessa grein, til kynna að ráðherrann geri sér grein fyrir mikilvægi þessarar atvinnugreinar.

Þó að við viljum að sjálfsögðu auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs verðum við að standa vörð um grunnatvinnuvegina vegna þess að sterkir grunnatvinnuvegir eru forsenda þess að upp úr þeim spretti nýjar atvinnugreinar, ekki hvað síst á sviði (Forseti hringir.) rannsókna og þróunar.