139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef einhvers staðar ætti að leita eftir samráði og víðtækri sátt hlyti það að vera í málum sem þessum sem snúa að því hvernig stjórnkerfi okkar er byggt upp. Hv. þingmaður nefndi þá undarlegu stöðu sem kom upp í Danmörku þegar enginn virtist átta sig á því hver væri landbúnaðarráðherra. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því reyndar í andsvari hér áðan að ein af rökunum fyrir ágæti þessa frumvarps væru þau að sams konar fyrirkomulag hefði verið innleitt annars staðar, meðal annars í Danmörku. En þar virðist það hafa leitt til þess að það var óljóst hver væri landbúnaðarráðherra og er þó landbúnaður mjög mikilvæg atvinnugrein í Danmörku. Danir flytja út gríðarlega mikið af landbúnaðarvörum, ekki hvað síst smjöri og svínakjöti og eru miklir hagsmunir þar í húfi. En með þessu fyrirkomulagi sem hæstv. forsætisráðherra lofar svo mjög gat sú staða samt komið upp að enginn vissi hver væri landbúnaðarráðherra.