139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[15:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef hér utandagskrárumræðu um gagnaver. Gagnaver hér á landi fá ekki þrifist nema ljósleiðarar séu til staðar. Auðlindir okkar Íslendinga liggja víða og eru margar hverjar afar dýrmætar. Sú auðlind sem lítið hefur farið fyrir og fengið litla umræðu er tenging okkar við Evrópu og Kanada í gegnum ljósleiðara. Má með sanni segja að við eigum hraðbraut í hafinu, ljósleiðarana sjálfa. Nú er það svo að málefni og hagsmunir ljósleiðaranna liggja í þremur ráðuneytum; fjármálaráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu. Það er mikill galli að mínu mati því að þá er hætta á að hagsmunir, þekking og yfirsýn yfir málaflokkinn sé ekki nægilega skýr.

Mér er sagt að þeir ljósleiðarar sem við höfum umráð yfir hafi flutningsgetu upp á 8 terabæt á meðan heildarumferð í Evrópu allri er um 16 terabæt. Fjórir ljósleiðarar liggja að landinu; Farice sem tengist okkur við Skotland með tengingu við Færeyjar, Danice sem tengir okkur við Danmörku, Greenland Connect sem tengir okkur við Grænland og Kanada og Cantat sem tengir okkur við Kanada, Bretland og Danmörku. Slökkt var á þeim streng fyrr á þessu ári og langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, ef hann getur svarað því, hvers vegna það var gert.

Grænlendingar eiga Greenland Connect en Farice og Danice eru í íslensku eignarhaldi og búa þeir samanlagt yfir þeim 8 terabætum sem ég talaði um áðan. Evrópa býr yfir helmingi fleiri terabætum en við þannig að við sjáum hver stærðin er á þessu hjá okkur.

Farice ehf. rekur sæstrengina báða, Farice og Danice, og er stærstur hluthafi Farice íslenska ríkið, Landsvirkjun og Arion banki ásamt fleiri hluthöfum, og nú hef ég lagt fram fyrirspurn fyrir þingið þar sem spurt er hvaða aðrir aðilar eigi strenginn líka.

Þrátt fyrir mikla möguleika til að nota þessa miklu auðlind er botnlaust tap á rekstri Farice, en það nam á síðasta ári 2,8 milljörðum kr. og tap ársins 2009 var um 2,4 milljarðar. Því er rekstrarafkoman óásættanleg. Félagið hefur einfalda ríkisábyrgð og gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árinu 2010 eftir að kröfuhafar höfnuðu kyrrstöðusamningi en þá lagði íslenska ríkið og Landsvirkjun félaginu til tæpa 1,7 milljarða í nýju hlutafé. Ábyrgð ríkisins er því mjög mikil fjárhagslega séð.

Það er óásættanlegt að ríkið standi í gegnum sjálft sig og Landsvirkjun undir þessum taprekstri, sér í lagi vegna þess að mikil tregða virðist ríkja varðandi verðlagningu til kaupenda þjónustunnar. Verðið er á engan hátt samkeppnishæft við það sem gerist á þessum þrönga markaði og er nýting ljósleiðaranna einungis 3% af heildarflutningsgetu, ég endurtek einungis 3%. Þarna er um mikla sóun á verðmætum að ræða sem ríkissjóður verður af í tekjum, ekki síst með tilliti til þess að ef innkoma væri meiri á strenginn væri hægt að hefja niðurgreiðslu skulda og afléttingu ríkisábyrgðar.

Mér er sagt að á meðan Farice lækki ekki verðið sé ljóst að enginn alvöruaðili muni sjá sér fært að koma hingað þar sem bandvíddarkostnaður er um 80% af heildarkostnaði við rekstur t.d. gagnavera á meðan orkan eða rafmagnið er aðeins um 1,5–2% af heildarkostnaði. Það er því ljóst að lágt orkuverð skiptir mun minna máli en verð á bandvídd. Farice er að bjóða samkvæmt verðskrá megabætið á 46 evrur en til stórnotenda og gagnavera er megabætið á 10–20 evrur. Til samanburðar býður Greenland Connect megabætið á 1 evru. Það sjá allir að þetta verð er ekki í neinu samhengi við þá litlu samkeppni sem býðst og mér er sagt að á næsta ári hugsi Emerald Networks sér til hreyfings til að koma hingað. Lækki Farice ekki verðið getur verið úti um það fyrirtæki með komu hins nýja fyrirtækis og það verður allra tap á sæstrengnum.

Það þýðir ekki að semja um lágt orkuverð og setja hagstæða skattalöggjöf um gagnaver ef verð á flutningi um strengina er ekki samkeppnishæft. Umferðin nú er nær eingöngu frá Íslandi og er sá markaður að verða mettur. Tækifærin liggja því í erlendum fjárfestingum og notendum til að sæstrengurinn verði sjálfbær og það þarf einungis um 15% aukningu til að hann standi undir sér. Hér eru miklir hagsmunir í húfi. Því langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir því að gera gagnaversiðnaðinn að veruleika hér á landi með því að krefja fyrirtækið um lækkun á verðskrá sinni eða koma á einhvern annan hátt að málinu svo strengurinn verði samkeppnishæfur? Er ráðherrann tilbúinn til að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar þó ekki væri nema til þess að ná því fjármagni til baka sem ríkið hefur nú þegar lagt í verkefnið? Ef ekki, hvernig sér þá ráðherrann fyrir sér að gagnaversiðnaðurinn nái sér á strik hér á landi og skili þeim gjaldeyristekjum (Forseti hringir.) í þjóðarbúið sem þessi iðnaður gæti boðið upp á?