139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[16:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum um rekstrarumhverfi gagnavera á Íslandi. Nýlega voru sett lög um breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem jafnar samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja með því að tryggja að útflutt þjónusta þeirra sé undanþegin virðisaukaskatti. Ákveðin þjónusta er undanþegin og önnur ekki. Hýsingarþjónusta er skilgreind sem aðstöðuleiga og því ekki undanþegin virðisaukaskatti, en gagnavinnsla er skilgreind sem útflutt þjónusta og því undanþegin.

Á upplýsingafundi í iðnaðarnefnd fyrir mánuði kom fram hjá samtökum gagnavera að þær skattbreytingar sem gerðar hafa verið hefðu gagnast vel og að unnið væri að frekari útfærslu mála í samvinnu við fjármálaráðuneytið, til að mynda um hvort skylt verði að setja upp varanlega starfsstöð á Íslandi af erlendum fjárfestum eða hvort hægt verði að komast hjá því meðan verið er að byggja upp starfsemina. Fjármálaráðuneytið sendi erindi til Eftirlitsstofnunar Evrópu í febrúar sl. um hvort niðurfelling virðisaukaskatts stæðist samkeppnisþáttinn og ráðuneytið hefur talið það túlkun á tekjuskattslögum hvenær starfsstöð telst varanleg og að þar þurfi að skoða hvert tilvik fyrir sig.

Það er þó umhugsunarefni hvort netþjónabú myndi aldrei fasta starfsstöð á Íslandi. Það dregur þá mikið úr tekjum ríkisins af þessari starfsemi sem miklar vonir eru bundnar við. Og sú staðreynd að ekkert hefur verið að gerast í uppbyggingu Verne Holdings sem miklar vonir voru bundnar við og var mikið í umræðunni á síðasta ári á sér þá skýringu að (Forseti hringir.) þar vantar fjármögnun þess fyrirtækis.