139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[16:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu gengur sá málflutningur ekki upp ef menn segja nánast að stjórnendur sæstrengjafyrirtækisins Danice og Farice sem núna er sameinað séu vísvitandi að verðleggja sig út af markaði. Hverjum dettur slíkt í hug? Að sjálfsögðu eru þeir að reyna að laða til sín viðskipti og bjóða þá kaupendum eftir stærð þeirra og mikilvægi eins góð kjör og þeir treysta sér til. Ég veit ekki betur en að fyrirtækið Verne hafi verið búið að ná samningum um verð við Farice þannig að það lá fyrir. Fyrirtækið Verne var sátt við það verð og ætlaði í fjárfestinguna á grundvelli þess. Hér er eitthvað sem gengur ekki upp.

Ég vísa ummælum hv. þm. Árna Johnsens til föðurhúsanna. Mikil vinna hefur verið lögð í þessi mál og fleiri til þess að reyna einmitt að stuðla að fjárfestingum og landa þar verkefnum. Ég get nefnt sem dæmi kísilverksmiðju í Helguvík. Hún fékk algeran forgang af hálfu okkar til að klára fjárfestingarsamning og tryggja að sú góða fjárfesting gæti farið af stað. Það er hart að þurfa að sitja undir þvættingi af þessu tagi.

Ég bendi á góðar fréttir sem við fengum í þessum efnum fyrir nokkrum (ÁJ: … kísilverksmiðju …) dögum þegar menntamálaráðherra og Háskóli Íslands undirrituðu samning við norræna háskóla um uppsetningu á mjög öflugu tölvuveri og gagnamiðstöð hér á háskólastiginu þar sem Ísland verður fyrir valinu, stórt verkefni sem gæti vel átt eftir að vaxa upp í enn þá stærri hluti. Það bendir til þess að Ísland sé samkeppnisfært, niðurstaða á könnun á þessu varð sú að norrænu háskólarnir ákváðu að bera niður á Íslandi og hafa miðstöð sína hér.

Við merkjum líka vaxandi áhuga margra aðila einmitt þessa mánuðina. Gagnaverið Thor er í hraðri uppbyggingu og fleiri aðilar hafa gert vart við sig.

Reglugerð um útfærslu á undanþágum vegna virðisaukaskatts verður að sjálfsögðu gefin út um leið og svör ESA liggja fyrir. Hún er í undirbúningi en það er erfitt að gefa hana út fyrr en við vitum hvort lögin sjálf fá (Forseti hringir.) grænt ljós hjá ESA, þá kemur í ljós hvort við höfum gengið lengra en okkur er stætt á. Vonandi ekki. (Forseti hringir.) Ég vona að með þessu hafi ég líka svarað hv. þm. Magnúsi Orra Schram.