139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér telst svo til að frá því að þessi umræða hófst í gær hafi verið haldnar 15 ræður um þetta mál. Ræða hv. þm. Magnúsar Orra Schram er tímamótaræða í þeim skilningi að hér er um að ræða fyrstu ræðuna frá því að hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu þar sem lýst er yfir stuðningi við málið.

Það liggur fyrir að hér er ekki um að ræða eiginlegt stjórnarfrumvarp heldur frumvarp sem í raun er flutt af þingflokki Samfylkingarinnar undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Það kom nefnilega fram í ræðum í gær, m.a. hjá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að sá þingflokkur stæði ekki að málinu. Hann hefði heimilað framlagningu þess með fyrirvara. Staða málsins er því mjög athyglisverð og ég vil spyrja hv. þingmann: Var þingflokki Samfylkingarinnar kunnugt um hver staða málsins var? Var þingflokki (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar gerð grein fyrir því að Vinstri (Forseti hringir.) hreyfingin – grænt framboð, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, stæði í raun og veru ekki að málinu?