139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað mig snertir er í raun og veru aukaatriði með hvaða hætti staðið var að kynningu málsins og hverjir báru það fram o.s.frv. Ég ætla að horfa á efnisatriði málsins. Hér tel ég að verið sé að taka gott og jákvætt skref í þá átt að breyta Stjórnarráði Íslands og gera vinnubrögð þess nútímalegri, skýra verkaskiptingu og verklag og eins og ég rakti ítarlega í 15 mínútna ræðu, breyta vinnubrögðum til hins betra.

Það er kannski einkennandi fyrir umræðuna að mér finnst gagnrýnin alltaf snúast um einhver aukaatriði. Ég heyrði ekki betur en að sá þingmaður sem talaði í gær, Álfheiður Ingadóttir hv. þm. Vinstri grænna hafi viljað ganga lengra í breytingum en þetta frumvarp gerir. Ég vænti þess að það fái góða og eðlilega málsmeðferð í nefnd og þar verði rætt hvernig hægt er að stíga þetta skref og koma til móts við þau sjónarmið sem rakin hafa (Forseti hringir.) verið í þingræðum.