139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þýðir ekkert að tala um að það sé aukaatriði þegar við ræðum um frumvarp til laga um sjálft Stjórnarráð Íslands, eina meginstoð stjórnskipunar okkar, hvort um sé að ræða stjórnarfrumvarp eða ekki.

Eftir því var kallað úr ræðustól Alþingis, m.a. af ráðherra úr núverandi ríkisstjórn, að reyna ætti að ná sem mestri samstöðu um þetta mál. Nú liggur hins vegar fyrir að málið er lagt fram í fullkomnu ósætti, ekki bara við stjórnarandstöðuna heldur milli stjórnarflokkanna sjálfra. Þetta er munaðarlaust mál. Hv. þingmaður getur ekki leyft sér að tala um það sem aukaatriði hvernig að málinu er staðið. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að fara af stað með mál af þessu tagi í slíku ósætti og engan veginn hægt að sjá fyrir hvernig því reiðir af. Við erum að tala um sjálft Stjórnarráð Íslands.

Það er líka undarlegt að stöðugt skuli vera reynt að réttlæta mál, (Forseti hringir.) jafnvel hins verstu mál, með því að segja að þau séu afrakstur af starfi þingmannanefndarinnar. Þingmannanefndin lagði aldrei til að (Forseti hringir.) draga úr valdi Alþingis og auka vald framkvæmdarvaldsins.