139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er sá háttur hafður á málum að forsætisráðherra í meirihlutastjórn ræðir það við samstarfsaðila sína í ríkisstjórn með hvaða hætti beri að skipa ráðuneytum, hverjir sitji í ráðherrastólum og hvaða verksvið þeir fjalli um. Þannig er það bundið í stjórnarsáttmála og það er svo kynnt fyrir þingflokkum sem standa að þeim meiri hluta.

Hér er verið að leggja til að sami háttur verði hafður á. Þannig erum við að færa verkstjóranum, verkstjóra framkvæmdarvaldsins, meiri völd til þess að haga málum á þann veg að kraftar allra nýtist, að Stjórnarráðið sé rekið eins og best háttar í atvinnulífi okkar þannig að maður fái það besta út úr hverjum og einum. Ég er fylgjandi þeirri breytingu en ég ítreka að að sjálfsögðu verða allar slíkar breytingar í upphafi stjórnarsamstarfs að fara í gegnum þingflokkana. Þannig er þingræðið til staðar eins og ég rakti í ræðu minni.