139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að þingmaðurinn minntist á ráðningar og hæfnismat því að mig langar til að minna á að hæstv. forsætisráðherra hefur nú þegar á þessu ári fengið á sig úrskurð henni í óhag þar sem þessi regla var þverbrotin. Það er því ágætt að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna telji sér trú um að þetta kratavæðingarfrumvarp sé til bóta þannig að þeirra eigin ráðherra geti farið að fara að bæði lögum og síðast en ekki síst hlíta úrskurðum og dómum Hæstaréttar. Það væri mikill munur ef svo væri.

Þingmaðurinn talaði mikið um að það vantaði verkstjórn og verkstjóra og þetta frumvarp væri til þess fallið að skýra það nánar að verkstjóri Íslands væri líklega hæstv. forsætisráðherra með þessu frumvarpi. Ég skil ekki alveg hvað þingmaðurinn er að fara en mig langar til að spyrja hann (Forseti hringir.) hvað hann eigi nákvæmlega við með því. Á að leggja af öll þessi gömlu góðu gildi og á að hræra svo mikið í pottinum að þetta heiti bara (Forseti hringir.) verkstjórn ríkisins og verkstjóri Íslands?