139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:42]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu — ágæta ræðu af því að það sást greinilega að hann trúði því og hafði trú á því sem hann var að segja. Í ljósi þess að hv. þm. Magnús Orri Schram er það sem við köllum nýr þingmaður og sat í þingmannanefnd sem skrifaði skýrslu um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis langar mig að spyrja hann. Ég vil ekki gera lítið úr því sem hv. þingmaður talaði um áðan, að það væri ekki efnisleg gagnrýni á frumvarpið heldur væri verið að gagnrýna vinnulag og annað. Mér finnst vinnulagið og það vinnulag sem stundað er í þinginu mjög mikilvægt og það hefur komið fram hörð gagnrýni á vinnulagið við þetta frumvarp. Því spyr ég hv. þingmann: Ertu sáttur við það samráð sem var haft við þingið og aðra? Ertu sáttur við það vinnulag sem var viðhaft þegar verið var að semja þetta frumvarp?