139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:46]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég vil í ræðu minni gera II. kafla frumvarps til laga um Stjórnarráð Íslands að umtalsefni, fyrst og síðast, og gagnrýni mín lýtur að þeim kafla frumvarpsins en ekki að öðrum.

Í II. kafla er fjallað um skipun ráðherra og verkaskiptingu á milli þeirra. Í 3. gr. er fjallað um að forseti skipi forsætisráðherra og síðan aðra ráðherra samkvæmt tillögum forsætisráðherra, að hvert ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra og heimilt sé að fela sama ráðherra að fara með fleiri ráðuneyti en eitt. Forsætisráðherra sker úr ágreiningi um verkaskiptingu.

Í 5. gr. er síðan sagt, með leyfi forseta:

„Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.“

Þarna er kjarni þess máls sem ég vil gera að umtalsefni, þ.e. það nýmæli sem er í þessu frumvarpi að forsætisráðherra hafi samkvæmt því heimild til að flytja stjórnarmálefni á milli ráðherra að vild. Þetta eru opin ákvæði, 4. og 5. gr., og fela í sér valdframsal frá löggjafarvaldinu miðað við núverandi skipan mála til framkvæmdarvaldsins og forsætisráðherra á hverjum tíma. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir að þetta sé gert með reglugerð heldur með tillögu forsætisráðherra sem getur samkvæmt þessum nýju heimildum flutt verkefni eða stjórnarmálefni fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið milli ráðherra og að geðþótta ef því er að skipta, t.d. vegna óánægju forsætisráðherra með störf og stefnu einstakra ráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra hefur m.a. til rökstuðnings þessum kafla ítrekað vísað almennt til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en án þess þó að tilgreina nánar meintar niðurstöður rannsóknarnefndarinnar að þessu leyti og hvar hún finni fullyrðingum sínum stað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ég vil því næst víkja að niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eins og þær birtast í skýrslu þingmannanefndar sem fjallar einmitt um skýrslu rannsóknarnefndar. Í skýrslu þingmannanefndar segir orðrétt á blaðsíðu 11 í kafla 2.4 um stjórnsýslu, með leyfi frú forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.“

Ég staldra fyrst og síðast við orðið formfesta, að menn geti gengið að því sem vísu hvernig stjórnsýslan er þegar ríkisstjórn er mynduð og þar fram eftir götunum.

Síðar segir á sömu blaðsíðu, með leyfi frú forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn.“

Með því að færa forsætisráðherra á hverjum tíma vald til að flytja stjórnarmálefni á milli ráðherra er verið að auka foringjaræði, sem kallað er oddvitaræði í skýrslu rannsóknarnefndar. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að slíkar ákvarðanir um tilflutninga, að ég best sé, verði teknar upp á ríkisstjórnarfundum. Ákvörðunin er að tillögu forsætisráðherra þó að ég reikni með að faglegur forsætisráðherra beri hana upp á ríkisstjórnarfundi, en það eru einberar tillögurnar sem ráða. Frumvarpið veitir sem sé forsætisráðherra vald til að flytja stjórnarmálefni að vild og þess vegna fyrirvaralaust með einberri tillögu. Mitt mat er að það sé ekki í samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, eins og ég las upp áðan úr skýrslu þingmannanefndar.

Um þetta ríkir hugsunarháttur formleysis og oddvitaræðis. Þetta kann að vera nýtt vopn í baráttu Samfylkingarinnar við að leggja stein í götu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með þessum hætti, verði þetta frumvarp að lögum, er unnt að taka verkefni frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða öðrum ráðherrum að vild.

Ég get ekki látið hjá líða í þessu samhengi að vísa, eins og ég hef gert oft áður, í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem var gefin út í nóvember 2007 af forsætisráðuneytinu, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skrifstofu Alþingis. Þar segir m.a. á blaðsíðu 8, með leyfi forseta:

„Æskilegt er að sem flestum stjórnarfrumvörpum sé útbýtt og þau sett á dagskrá í byrjun þings á haustin. Þannig gefst þingnefndum nægilegur tími til að fara gaumgæfilega yfir mál. Þetta meginsjónarmið endurspeglast í 2. mgr. 36. gr. þingskapa, þar sem segir að lagafrumvörp sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu verði því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.“

Í handbókinni kemur fram að huga þarf að mörgu áður en lagafrumvarp er lagt fram: Er lagafrumvarpið nauðsynlegt? Það þarf að huga vel að samningu frumvarpsins. Það þarf að hafa samráð við undirbúning og gerð frumvarpsins, þ.e. pólitískt samráð og faglegt, samráð milli ráðuneyta, samráð við hagsmunaaðila og almenning. Og meta þarf áhrif frumvarpsins.

Að mínu mati hefur ekki verið nógsamlega gætt að því í samningu þessa frumvarps en þó miklu fremur en við samningu frumvarps sem er næst á dagskrá þingsins, svonefnds bandorms. Ég verð að segja og hef oft sagt í ræðustól Alþingis að það er gríðarlega mikilvægt að hafa samráð og leita samstöðu í ákveðnum málum sem ber á fjörur Alþingis, þar á meðal við breytingar á Stjórnarráðinu.

Frá því að ég settist á þing árið 2007 hefur þrisvar eða fjórum sinnum verið hringlað með þetta form. Um Stjórnarráðið á að gilda sátt. Það er hluti af formfestunni í samfélaginu. Hver einasta ný stjórn á ekki að setjast í ráðherrastóla og fara í þá vegferð að breyta skipan Stjórnarráðsins, næsta stjórn snýr henni því næst til baka og þar fram eftir götunum. Það gildir hið sama í þessum efnum um Stjórnarráðið og um breytingar á þingsköpum. Það verður að ríkja bærileg sátt um það líkt og um breytingar á stjórnarskrá.

Ég segi það, frú forseti, að áhrif umræddra lagabreytinga minnka formfestuna, minnka gagnsæið, minnka aðkomu stjórnmálamanna og annarra að ákvarðanatöku þegar stjórnarmálefni eru flutt. Það er verið að færa vald frá Alþingi til forsætisráðherra sem að mínu mati gengur þvert gegn pólitískri umræðu og niðurstöðum í m.a. opinberum skýrslum sem komið hafa fram eftir hrunið. Hér er verið að breyta valdahlutföllum til hins verra. Það opnar því miður fyrir geðþóttaákvarðanir. Um er að ræða framsal löggjafarvalds sem fræðimenn og afar margir hafa á undanförnum árum og áratugum gagnrýnt þingið og framkvæmdarvaldið harðlega fyrir.

Enn fremur er með frumvarpinu ráðist í afgerandi túlkun á stjórnarskrá Íslands sem ég hlýt að telja mjög óheppilegt meðan stjórnlagaráðið er að störfum og hefur það hlutverk að taka á þeim málum sem fjallað er um í þessu frumvarpi. Það er verkefni ráðsins sem er að störfum.

Það er mat mitt, sem ég byggi öðru fremur á störfum mínum á þingi, að lagabreytingin geri íslenska stjórnkerfið óskýrara og vinni gegn gagnsæi. Þá er það breyting sem er andstæð almennum reglum og gildandi lögum um sjálfstæði ráðherra þar sem forsætisráðherra getur einhliða fært verkefni frá einum ráðherra til annars.

Ég ítreka að áformin ganga þvert á þau varnaðarorð sem er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um oddvitaræði og áhrifaleysi Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að það þurfi þrennt til í þessum efnum áður en lengra er haldið:

1. Að metið verði af óvilhöllum aðilum hversu vel umrædd lagabreyting samræmist þeim almennu varnaðarorðum og vegvísi sem beitt er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

2. Að farið verði í hvívetna eftir Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa og drög að frumvarpi verði lögð fram til almennrar kynningar á netinu. Það er mikilvægt mál.

3. Að málið verði lagt til umsagnar eða til meðferðar hjá stjórnlagaráði og ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en ráðið hefur lokið starfi sínu sem verður nú í júní ef vel gengur.

Að lokum til enn frekari rökstuðnings fyrir orðum mínum vil ég vísa í ræðu sem ég flutti við stjórnarráðsbreytingar á haustþingi árið 2007 og síðar. Ég hef ekki breytt skoðunum mínum í neinu í þeim efnum.

Frú forseti. Það veldur mér umtalsverðum vonbrigðum að rökstuðningur fyrir breytingum samkvæmt II. kafla stjórnarráðsfrumvarpsins skuli vera tengdur niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þess vegna mun ég standa gegn þessu frumvarpi.