139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:01]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Ég vísaði fyrst og síðast til formfestu og oddvitaræðis og flutti rök fyrir því. Ég geri það meðal annars af reynslu minni sem formaður þingmannanefndarinnar. Ég fjallaði hins vegar einvörðungu í ræðu minni um II. kafla sem er ef til vill líka veigamesti þátturinn í þessu frumvarpi, en vil þó halda því til haga svo öllu réttlæti sé fullnægt að það eru fjölmörg atriði í frumvarpinu að öðru leyti sem taka mið af skýrslunni. Það er þetta atriði sem ég segi að sé ekki. Ég svara spurningunni sem borin var undir mig þannig að ég sjái ekki að svo sé.