139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem stendur upp úr í allri þessari umræðu er að minnsta kosti það að enginn getur vefengt að það sem verið er að gera með þessu frumvarpi er að færa vald sem löggjafarvaldið hefur haft og byggir á stjórnarráðslögunum frá 1969. Meginhugsunin á bak við stjórnarráðslögin frá 1969 var einmitt að koma í veg fyrir það sem menn töldu að hefði gerst í fortíðinni, einhvers konar hrossakaup þar sem verkefni voru færð til milli ráðuneyta án nokkurra röksemda í rauninni. Hlutum var skákað til til þess að koma ríkisstjórnum saman. Maður sér auðvitað að það er verið að reyna að búa til meira rými fyrir hæstv. forsætisráðherra til að skáka hlutum til. Auðvitað er öllum það ljóst þrátt fyrir endalausa svardaga hæstv. forsætisráðherra hvað hér er verið að gera. Það er verið að svara því að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafði ekki vald til að sameina atvinnuvegaráðuneytin svokölluðu (Forseti hringir.) og er núna að svara fyrir sig með þessu frumvarpi.