139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:08]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það sé kjarni þessa máls að með ákvæðum 4. og 5. gr. frumvarpsins er unnt að færa þetta vald að vild milli ráðherra. Í 5. gr. segir bara: „Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr. …“. Það er algjörlega augljóst að þar skortir formfestuna og þar skortir það gagnsæi að menn geti gengið að einhverju vísu í stjórnsýslunni fyrir fram en ekki að það sé breytt staða eftir því hvernig vindar blása, jafnvel innan Stjórnarráðsins, innan ríkisstjórnar, hverju sinni. Það er ekki gott. Það er ekkert varðandi ráðherrana. Þetta snýr að almenningi líka sem ráðherrarnir gæta hagsmuna fyrir í störfum sínum.

Fyrir mér er þetta stórt mál; formfesta, gagnsæi og að dreifa lýðræðinu, koma í veg fyrir (Forseti hringir.) oddvitaræði.