139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og höfum farið víða og oft og tíðum hefur umræðan snúist um eitthvað allt annað en frumvarpið sjálft sem hér er til umræðu. Menn geta leitt líkum að því af hverju frumvörp eru lögð fram og ályktað sem svo að tilgangurinn sé einhver annar en það frumvarp sem fyrir liggur og margir hv. þingmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu.

Ég verð hins vegar að viðurkenna, frú forseti, að mér er það hulin ráðgáta hvers vegna sú breyting er talin helst í frumvarpinu — þar sem stendur í athugasemdum á bls. 7:

„Hvað varðar skipulag Stjórnarráðsins þá er helsta breytingin í frumvarpinu fólgin í því að lagt er til að sú löggjafarframkvæmd að telja ráðuneyti upp með tæmandi hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands verði aflögð … Samhliða framangreindri breytingu er lagt til í sérstöku frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi að afnumin verði sú löggjafarframkvæmd að tilgreina heiti ráðherraembætta og ráðuneyta í lögum um einstök málefnasvið og að verkaskipting á milli ráðuneyta verði einvörðungu ákveðin af stjórnvöldum með forsetaúrskurði eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir.“

Frú forseti. Í þessu þykir mér framkvæmdarvaldið vera að taka sér æðimikið vald á kostnað löggjafans. Með þessu frumvarpi á að leggja niður þá löggjafarframkvæmd að telja ráðuneytin upp, hún verður ekki virk.

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni hvað það varðar að með því að fela verkstjórnina alfarið í hendur forsætisráðherra, eins og mér virðist að hér eigi að gera, séum við að hverfa til enn frekara oddvitaræðis en við höfum þó upplifað á undanförnum árum; og hefur það nú verið ærið að mati margra. Ég ætla þó ekki neinum forsætisráðherra að vilja skipta ráðuneytum eftir geðþóttaákvörðun á milli einstakra manna, t.d. ef ráðherrar rekast illa í ríkisstjórn. Hingað til hafa meirihlutastjórnir verið við völd og menn hafa þurft að koma sér saman um hvernig ráðherraembættum er skipt og hvernig menn hafa skipt verkum sín á milli.

Mér er það líka hulin ráðgáta, og mér finnst það ekki hafa verið nægjanlega skýrt af hálfu hæstv. forsætisráðherra, sem talaði fyrir þessu frumvarpi, hvers vegna verið er að hverfa til þessa þegar það er nú þegar í lögum ekkert vandamál að sami ráðherra sé ráðherra yfir ólíkum ráðherraembættum eins og þau eru tilgreind í löggjöfinni í dag. Það er hægur vandi að einn og sami aðili verði sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðherra, en óskað hefur verið eftir að hugsanlega verði það allt undir heitinu atvinnuvegaráðuneyti; það er þá meðal þess sem verið er að breyta samkvæmt þeim 546 greina bæklingi sem þarf að mæla fyrir að loknum þessum umræðum.

Mér hugnast ekki þessi breyting svo að það sé sagt. Ég tel að hún sé ekki í anda þess gegnsæis sem við höfum talað hér um. Hún styrkir enn frekar, ef hægt er að hugsa sér það, oddvitaræði á kostnað valddreifingar og það er ekki af hinu góða.

Ég ítreka það að ég ætla samt engum forsætisráðherra að vilja breyta ráðuneytum sínum og færa til ráðherra eftir geðþótta sínum eða eftir því hversu illa menn rekast í stjórnarsamstarfi, ekki frekar en ég ætla þingmönnum almennt að taka ákvarðanir á löggjafarsamkundunni út frá sínum eigin geðþótta. Ég treysti því að fólk sé hér og í ríkisstjórn að vinna með önnur markmið í huga en geðþóttaákvarðanir einar og sér.

Mig langar, frú forseti, aðeins að fjalla um þessar breytingar í ljósi skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis, hvernig þetta tengist og hvort þetta tengist, hvort farið er eins langt og lagt var til í skýrslu þingmannanefndarinnar. Að loknu því sem ég hef sagt um I. kaflann, um Stjórnarráð Íslands, sem ég get ekki fallist á að verði samþykktur eins og lagt er til í frumvarpinu, langar mig að fjalla aðeins um III. kaflann um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra.

Um það var rætt að þingmannanefndin teldi mikilvægt að fundargerðir ríkisstjórnar yrðu skráðar með skýrum hætti og þær birtar opinberlega. Mér sýnist, í 7. gr. þessa frumvarps, ekki vera gengið í þá átt sem lagt var til af þingmannanefndinni. Það er jú sagt að fundargerðir skuli staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra, þar skuli færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum, en það er hvergi nefnt í 7. gr. að þessar fundargerðir skuli birtar opinberlega eða vera aðgengilegar öðrum en forsætisráðherra og ráðherrum. Ég legg á það áherslu og óska eftir því við hæstv. allsherjarnefnd að hún skoði 7. gr., um að fundargerðir verði birtar opinberlega fyrir þingmenn og aðra, og að það verði haft til hliðsjónar það sem sagt er í skýrslu þingmannanefndarinnar um fundargerðir, þ.e. að við hlið þeirra verði sérstök trúnaðarbók sem hægt er að skrá í þau málefni ríkisins sem teljast viðkvæm eða önnur mál sem lúta að trúnaði svo að hægt sé að fylgjast með hvað fer fram á ríkisstjórnarfundum. Með því erum við að færast í átt til þess sem er á bæjarstjórnarfundum og þá erum við kannski aftur komin að því grundvallaratriði hvort ríkisstjórn Íslands eigi ekki að vera fjölskipað vald sem beri sameiginlega ábyrgð á því sem fram fer, en einstaka ráðherrar ekki bara ábyrgir fyrir ráðuneytum sínum.

Í 8. gr. segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra ber að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra, sbr. 4. gr., sé eins skýr og kostur er. Ráðherrar skulu leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast.“

Frú forseti. Ég held að enn frekar þurfi að skerpa á þessu og einhvers staðar þarf að koma fram, á meðan við höfum ekki ákveðið að gera ríkisstjórn að fjölskipuðu valdi, að fagráðherrar bera ábyrgð. Hvergi er talað um það, enda verður enginn fagráðherra samkvæmt þessu, það verður ákveðið einhvers staðar sér. En það þarf að kveða skýrar að orði, ekki tala eingöngu um að ráðherrar skuli „leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast“. Við þekkjum það úr hruninu að forsætisráðherra, utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra virtust ekki alltaf vera á sömu fundum og hvernig skilaboðin fóru misvísandi á milli manna og ljóst að fagráðherrann virtist ekki vita um það sem fram fór en var þó á hans ábyrgðarsviði og forsætisráðherra sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar bar ábyrgð á öllu. Í þessari grein, 8. gr., þarf að skýra mun frekar ábyrgð ráðherra.

Í V. kaflanum er með einhverjum hætti reynt að koma til móts við það sem stendur á bls. 10 í skýrslu þingmannanefndarinnar og tekur til eftirlitsaðilanna, þ.e. að ítreka ábyrgð fagráðherra á eftirliti með störfum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands og með einstökum stofnunum sem heyra undir hans ráðuneyti. Ég tel að menn séu því að reyna að koma til móts við sjónarmið þingmannanefndarinnar, og ég fagna því að það skuli gert með þessum hætti. Ég tel þó að menn megi kveða skýrar að orði um það sem ætlast er til. Við erum að setja lög og það er þá eins gott að þau séu skýr svo að ráðherrar eða stjórnendur stofnana geti ekki skýlt sér á bak við það að þau séu óljós.

Síðan kemur, frú forseti, V. kaflinn um innra skipulag ráðuneyta og starfsmannahald. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var, eins og þeir sem hér starfa vita, áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi, skorti á formfestu, jafnt í ráðuneytum sem og í sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Hér reyna menn að skerpa frekar á því og þá er sérstaklega rætt um starfsmannahald.

Það er sérkennilegt, frú forseti, hvernig ríkið og opinberir aðilar binda það alltaf í lög að tryggja starfsmönnum sínum aukin réttindi umfram aðra á vinnumarkaði. Hér er haldið áfram á þeirri braut. Í 21. gr. á bls. 4 er talað um heimild til að færa starfsmenn og embættismenn á milli ráðuneyta. Fjallað er um það að ekki þurfi að beita 7. gr. laga nr. 70/1996, þar sem sagt er að auglýsa beri embætti og önnur störf opinberlega. Ef menn ákveða að færa embættismenn, og þá sérstaklega aðra starfsmenn, um embættismenn gildir kannski annað, þurfi ekki að beita þessum lögum frá 1996. Þetta ræddum við allhressilega þegar ákveðið var að sameina landlæknisembættið og Lýðheilsustöð. Ég taldi þetta galla og er í því tilviki ekki að hnýta í þá starfsmenn sem gegna störfum, en í skýringum með frumvarpinu er talað um að þetta sé meðal annars gert til að stuðla að betri nýtingu mannauðs og efla hreyfanleika starfsmanna.

Ég sé ekki að starfsmenn ráðuneyta eigi, verði tilfærsla á störfum þeirra, hafi þeir hæfni og getu til að sinna þeim, að óttast að starf þeirra verði auglýst ef breytingar verða á högum þeirra. Alls staðar annars staðar á vinnumarkaði viðgengst slíkt. Ég tel tímabært að við færum okkur í átt að nútímanum þegar kemur að opinberum starfsmönnum og auglýsum störf þeirra, þannig að hver og einn sem telur sig hafa hæfni til geti sótt um störf verði breyting innan ráðuneytis.

Frú forseti. Ég velti líka fyrir mér 25. gr. þar sem sagt er að forsætisráðherra sé heimilt, og eiginlega lagt til að hann geri það, að koma á samhæfingarnefnd. Samhæfingarnefndin á samkvæmt frumvarpinu fyrst og síðast, að því er ég best fæ séð, að stuðla að því að siðferðislegum viðmiðum sé gert hátt undir höfði, að siðareglum á grundvelli laga og réttinda o.s.frv. sé framfylgt.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrsluna var því meðal annars beint til framkvæmdarvaldsins að í hvert skipti, það getur hugsanlega átt við þær ráðherranefndir sem hér eru tilnefndar, væri það algjörlega skýrt í hverju verkefni þessara nefnda væri fólgið, hverjir væru verkferlar, hvert væri ábyrgðarsviðið, hvað ætti að gera með afurðina sem út úr ferlinu kæmi og hver bæri ábyrgð á að upplýsingar bærust til þeirra sem á þyrftu að halda. Vissulega kemur ýmislegt í frumvarpinu til móts við það sem umrædd þingmannanefnd lagði til, en það er kannski hér eins og oft áður að þegar taka þarf til byrja menn kannski ekki á réttum enda í tiltektinni og ganga lengst í því sem síst skyldi en skemur í því sem betur mætti fara.

Ég vænti þess, frú forseti, að hæstv. allsherjarnefnd, þegar hún fer yfir frumvarpið, hafi sér til halds og trausts niðurstöður skýrslu þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar má finna margt sem getur betrumbætt frumvarp, sem liggur fyrir þinginu, til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands.