139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að gengið sé þvert gegn þingmannanefndinni, en hins vegar tel ég að sú grunnhugmynd sem býr að baki því að taka í burtu þá löggjafarframkvæmd að telja upp ráðuneyti og fela þau forsætisráðherra hverju sinni kunni að leiða til þess að engar breytingar verði gerðar. Hún veitir hins vegar heimild til að fara með öðrum hætti með þrátt fyrir það sem stendur í skýringum við 4. og 5. gr. um að þetta sé eins og er í gildandi lögum. Samkvæmt gildandi lögum er hægt að færa verkefni eins ráðuneytis yfir til annars ráðuneytis, það er alveg ljóst. En menn eru hér að fara í þá grundvallarbreytingu að taka burtu þá löggjafarframkvæmd að telja ráðuneytin upp með þeim nöfnum sem menn óska að þau heiti og færa ákveðið vald að mínu mati frá þinginu yfir til framkvæmdarvaldsins einhverra hluta vegna sem mér finnst enginn hafa skýrt. Ég skil ekki alveg af hverju menn óska eftir heimild til að fara þessa leið. Ég óttast, frú forseti, að þetta sé ákveðin leið í áttina að minni valddreifingu og meira — ljótt að segja þetta orð — einræði en við höfum búið við hingað til.