139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að svara því fyrst sem síðast var spurt um: Auðvitað getur frumvarpið heimilað forsætisráðherra að flytja landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin til utanríkisráðuneytisins, frumvarpið felur það í sér, það er hægt. Nú ætla ég ekkert að segja til um það hvaða hugmyndir einstakir hæstv. forsætisráðherrar geta fengið á einstökum tímum, en þetta væri alla vega hægt miðað við ákvæði frumvarpsins. Undir slíkum kringumstæðum þyrfti forsætisráðherra ekki að fara til þingsins og fá til þess lagaheimild að gera slíka breytingu. Það er það sem í mínum huga er stærsti gallinn á frumvarpinu, með því að leiða það í lög væri verið að flytja töluvert vald í þessum efnum, mikið vald raunar, frá þinginu til ríkisstjórnar og kannski fyrst og fremst til forsætisráðherra. Það held ég að sé eitthvað sem við verðum að varast.

Það er augljóst að því fylgja ákveðnar hættur. Ég tek fram að ég ætla engum illt í þeim efnum. Við vitum hins vegar að hættan er fyrir hendi. Eins og hv. þm. Atli Gíslason, hygg ég hafi verið, sagði hér fyrr í dag getum við ekki hannað reglurnar á þann veg að alltaf sé gert ráð fyrir því að allar ákvarðanir séu teknar af bestu yfirsýn og sanngirni. Það verða að vera varnaglar með öðrum orðum, það verða að vera (Forseti hringir.) varnaglar í lögum.