139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Af því það barst í tal áðan að forsætisráðherra gæti dottið í hug að flytja sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin undir utanríkisráðuneytið, er kannski ágætt að rifja aðeins upp hver vilji hæstv. forsætisráðherra hefur verið í þeim efnum. Það kom frumvarp inn í þingið sem fól í sér að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, en Alþingi Íslendinga, vegna þess að það hefur það vald að stýra því hvaða ráðuneyti starfa undir Stjórnarráði Íslands, tók þennan hluta frumvarpsins út en samþykkti það að öðru leyti. Nái þetta frumvarp fram að ganga hefur Alþingi Íslendinga ekki lengur möguleika á því að gera það sem það gerði þarna og forsætisráðherra fær það vald. Þetta er einmitt það sem þeir hafa talað um hv. þingmenn sem voru í þingmannanefndinni — hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Atli Gíslason töluðu um að þarna væri verið að auka oddvitaræðið á kostnað valddreifingar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því hann á sæti í allsherjarnefnd, sem mun fá þetta mál til meðferðar, hvernig allsherjarnefnd geti farið yfir það hvort frumvarpið nær þeim markmiðum sem voru sett fram af þingmannanefndinni og í rannsóknarskýrslu Alþingis. Nær frumvarpið þeim markmiðum? Það liggur ljóst fyrir að í það minnsta formaður þingmannanefndarinnar hefur sagt að svo sé ekki, það gangi í veigamiklum atriðum í öfuga átt. Hvernig telur hann að allsherjarnefnd geti farið yfir þetta mál og tryggt að verið sé að fylgja þeim hugsunum og þeim vilja sem Alþingi lét í ljós með umræddri þingmannanefnd og þeim vilja að auka gegnsæi, valddreifingu og annað því um líkt, en ekki auka (Forseti hringir.) foringjaræðið eins og gert er í umræddu frumvarpi?