139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega eru mörg atriði í frumvarpinu jákvæð, og jákvæð skref eru stigin. En varðandi það veigamikla atriði sem felur í sér að flytja þessa ákvarðanatöku frá Alþingi Íslendinga — Alþingi hefur á þessu kjörtímabili sýnt vilja til að beita þessu valdi, það hefur breytt frumvörpum frá hæstv. forsætisráðherra hvað þetta snertir. Eru þær breytingar sem gera þarf á þessu frumvarpi þá ekki allt of veigamiklar? Ef ætlunin er að Alþingi haldi þessu áfram erum við einfaldlega að tala um gjörbreytt frumvarp. Það er ekki hægt að betrumbæta það frumvarp sem fyrir liggur þannig að Alþingi haldi þeim möguleika sínum að geta stýrt þessum málum sjálft. (Forseti hringir.) Við erum einfaldlega að tala um nýtt frumvarp. Við erum að tala um aðra þætti. (Forseti hringir.) Er þá ekki eina leiðin að gera það sem hv. þingmaður nefndi, að taka (Forseti hringir.) þessa þætti alfarið út og (Forseti hringir.) einbeita sér að því sem samstaða (Forseti hringir.) er um og er jákvætt?