139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að ég nái að sýna bæði hæstv. forseta og bjöllunni virðingu.

Varðandi athugasemdir hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar er ég í meginatriðum sammála honum eins og kannski hefur komið fram í þessari umræðu. Það er spurning um aðferð, hvort það sem nýtilegt er í frumvarpinu verði látið standa og notast við það með einhverjum lagfæringum eða hvort samið verður nýtt frumvarp. Það er álitamál hvað hentugast er að gera í því. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi meginbreyting er ekki bara í einhverri einni grein, það eru fleiri atriði sem þar eru undir. Auðvitað þarf að skoða það ef sú ákvörðun verður tekin, sem ég tel skynsamlegast, að taka þessi umdeildu ágreiningsmál bara burt og henda þeim og halda áfram með hina þætti málsins. Þá þarf auðvitað að endurskoða frumvarpið í heild, það er alveg rétt. Hvort það gerist með vinnu við þetta frumvarp eða nýtt frumvarp, ég hef ekki sterkar meiningar um það.