139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sveigjanleikann sem hefur töluvert verið ræddur. Nú voru breytingar gerðar á stjórnarráðslögunum 2007 og miklar umræður um þær og alls ekki nein sátt í þinginu. Þá var í raun opnað fyrir svipaða hluti, ekki jafnmikla og í þessu frumvarpi, alls ekki, varðandi breytingar á ráðuneytum og tilfærslu og slíku.

Það sem ég er að velta fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann um er hvort það geti verið niðurstaðan að reynslan kenni okkur að það hafi ekki endilega verið mjög gott spor og þá hvort við eigum jafnvel að staldra við lögin eins og þau eru í dag eða taka eitt skref til baka líkt og fyrir breytinguna 2007. Þá horfi ég til þess hvað reynslan hefur kennt okkur, hvað við höfum séð og lært af efnahagshruninu, af stjórnsýslunni og þeim ábendingum sem þingmannanefndin kom með. Því set ég spurningarmerki við sveigjanleikann. Auðvitað má segja að í einhverjum tilfellum þurfi hann að vera til staðar en ég held að hann þurfi þá að lúta eftirliti Alþingis.

Einnig kemur fram í frumvarpinu að ráðuneyti skuli aldrei vera fleiri en tíu. Einhvern veginn finnst mér eins og það stangist á við hugmyndina um sveigjanleika að binda það í lög. Ef einhver alvara er á bak við hugmynd manna um sveigjanleika, sem mér hefur einna helst fundist koma fram hjá þeim er aðhyllast þetta frumvarp, þá stangast þetta á við þær hugmyndir.