139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nokkrar ábendingar og vangaveltur mínar varðandi efnisatriði málsins. Ég fer kannski ekki beint frá 1. gr. yfir í 27. gr. heldur hoppa aðeins þar á milli.

Ég ætla að byrja á að ræða um 14. gr., þá sérstaklega hvað varðar sjálfstæðar stofnanir. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur krafið sjálfstæð stjórnvöld, sem heyra stjórnarfarslega undir hann, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem þörf er á til að sinna eftirliti samkvæmt 13. gr. og öðrum lögmæltum skyldum ráðherra.“

Í vinnu þingmannanefndarinnar sem ég sat m.a. í var einmitt töluvert rætt um ákveðinn vanda sem ráðherrar væru í gagnvart sjálfstæðum stofnunum eða sjálfstæðum stjórnvöldum. Það virtist vera óskýrt í verklagi og lögum hvernig ráðherra ætti nákvæmlega að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart sjálfstæðum stofnunum. Þetta var mjög áberandi í aðdraganda hrunsins þar sem lykilstofnanir voru svokallaðar sjálfstæðar stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn.

Á blaðsíðu 34 í greinargerð sem fylgir frumvarpinu eru tilgreindar tillögur úr skýrslunni Samhent stjórnsýsla þar sem bent er á að mikilvægt sé að taka á hlutum sem varða sjálfstæð stjórnvöld eins og:

a. Eftirlit með fjárráðum og eignum.

b. Skylda til frumkvæðis að stefnumótun á málasviði þeirra.

c. Skylda stjórnvalda til að veita upplýsingar um almenna stefnu, ekki einstök mál.

d. Réttur ráðuneyta til upplýsinga um þætti sem ekki tengjast beinni málsmeðferð stjórnvalds í einstökum málum.

e. Tryggja þarf að upplýsingar geti gengið frá stjórnvaldi til ráðuneytis án þess að þær verði opinberar ef um er að ræða viðkvæm mál.

Síðan eru vangaveltur um hvort fækka þurfi stjórnum. Ég held að við flest gerum okkur ágætlega grein fyrir að t.d. stjórn Seðlabankans virðist vera hálfgerð hússtjórn frekar en að hún sinni beinu eftirlitshlutverki gagnvart seðlabankastjóra. Það kom líka upp í aðdraganda hrunsins ákveðinn ágreiningur eða átök á milli forstjóra Fjármálaeftirlitsins og stjórnar Fjármálaeftirlitsins.

Ég geri athugasemdir við 14. gr. þó að hún sé til bóta. Þar er talað um að ráðherra geti krafið stjórnvöld um upplýsingar. Ég tel samt sem áður að skerpa þurfi betur á hvers konar upplýsingar um ræðir nákvæmlega og að taka þurfi jafnvel þau ákvæði sem koma fram í tillögum þessarar nefndar beint inn í lögin sjálf. Svo förum við vonandi að vinna ný lög um Seðlabankann og fleiri sjálfstæðar stofnanir og þá er mikilvægt að við tökum afstöðu til þess hvort leggja eigi almennt niður stjórnir sjálfstæðra stofnana. Þá yrði það bara forstjórinn sem heyrði beint undir ráðherrann.

Síðan fer ég yfir í 19. gr. Þar er talað um hæfnisnefndir varðandi skipun í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum. Ein af ábendingum þingmannanefndarinnar er m.a. um þetta, þ.e. mikilvægi þess að auka fagleg vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, og aðrar nefndir sem hafa starfað beint undir stjórnsýslunni hafa bent á það sama. Þetta er skref í rétta átt, en ég tel að ekki sé gengið nógu langt.

Talað er um að niðurstaða hæfnisnefndarinnar skuli vera ráðgefandi við skipan í embætti. Ráðherra getur samkvæmt því þakkað fyrir ráðið og hundsað það. Það er einmitt ábending frá einni af hæfnisnefndunum, sem velti fyrir sér hvort val á ráðuneytisstjóra ætti að vera borið upp í ríkisstjórn þannig að ríkisstjórnin mundi þá taka sameiginlega ákvörðun um það hvort viðkomandi yrði ráðinn ráðuneytisstjóri eða ekki. Önnur hugmynd sem ég mundi vilja nefna, þá horfi ég til ákveðinna fyrirmynda Vestanhafs, er að Alþingi tæki ákvörðun um ráðninguna þannig að kosið yrði um hvort meiri hluti innan þingsins væri fyrir því að viðkomandi tæki við starfi ráðuneytisstjóra. Fagnefnd færi þá yfir hæfni og legði fram tillögur og greidd yrðu atkvæði um þær í þinginu. Þetta er ein af vangaveltum mínum sem ég held að sé mikilvæg í ljósi áhyggna og umræðna sem hafa verið hér í dag og í gær. Menn hafa áhyggjur af því að verið sé að færa valdið, ekki bara á hendur oddvita í ríkisstjórn heldur forsætisráðherra, og velta því fyrir sér hvernig við getum í auknum mæli tryggt lýðræðislegri vinnubrögð við slíkar ákvarðanir.

Í 6. gr. eru skilgreind orð í stjórnarskránni, annars vegar nýmæli í lögum og hins vegar mikilvæg stjórnarmálefni. Það er mjög mikilvægt að skilgreina skýrt hvað átt sé við með nýmælum í lögum og hvað séu mikilvæg stjórnarmálefni. Ástæðan fyrir því að ég legg mikla áherslu á hve mikilvægt þetta er er m.a. grundvöllur þess ef við þurfum aftur að taka afstöðu til laga um ráðherraábyrgð. Eitt af því sem var mikið rætt í umræðunni um ákæru fyrir landsdómi var hvað mikilvægt stjórnarmálefni væri nákvæmlega. Ég tel enn á ný að ekki sé nógu vel tilgreint hvað sé mikilvægt stjórnarmálefni. Þó að auðveldara sé fyrir okkur öll að hafa sameiginlegan skilning á því hvað nýmæli eru í lögum hafa mikilvæg stjórnarmálefni á hinn bóginn flækst aðeins meira fyrir okkur. Að vísu er talað um reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru að feli í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar, eða ef sýnt þykir að reglugerðaryfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt. Stundum er þetta ekki spurning um ákveðna stefnumörkun eða áherslubreytingar heldur að upplýsa ráðherra um hluti sem eru að gerast í öðrum ráðuneytum sem geta varðað ákvarðanir viðkomandi og þær ákvarðanir sem hann tekur ef hann hefur upplýsingarnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að allsherjarnefnd fari mjög vel yfir þessar skilgreiningar og hafi í huga lögin um ráðherraábyrgð og önnur gögn eða efni sem hefur verið ritað um nákvæmlega þá þætti.

Það er búið að ræða mikið um 1. gr. Þar er stórt atriði og ég hef áhyggjur af því hvort við séum algjörlega að taka fyrir það sem gerðist í aðdraganda hrunsins þegar einstaka ráðherrar gengu inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Að vísu kemur fram í greininni að hver sé á sínu málefnasviði. Það hefur komið fram í umræðunni, eins og kemur fram í greinargerðinni, að svo virðist vera sem ákvarðanir sem teknar eru í ríkisstjórn séu ekki lagabindandi fyrir ráðherrana heldur séu þær fyrst og fremst pólitísk stefnumörkun. Hins vegar segir í 5. gr. í lögum um ráðherraábyrgð, með leyfi forseta:

„Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, samanber 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.“

Ef við flettum síðan upp 17. gr. er einmitt talað um þessi nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Samkvæmt textanum má segja að ef tekin er ákvörðun og hún færð til bókar bera allir ráðherrar ábyrgð á þeirri ákvörðun samkvæmt þessum lögum. Þetta er eitt af því sem menn hafa rökrætt og ég ítreka að það er mjög mikilvægt að allsherjarnefnd ræði hvenær ráðherrar bera allir sameiginlega ábyrgð og hvenær þeir bera einungis ábyrgð á eigin athöfnum.

Ég vil taka undir athugasemdir hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur varðandi fundargerðirnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra athugasemda og ábendinga sem komu frá þingmannanefndinni um að fundargerðir yrðu gerðar opinberar og haldin sérstök trúnaðarmálabók sem væri þá lokuð. Þá er horft til ákveðinnar fyrirmyndar sem er viðhöfð á sveitarstjórnarstiginu. Ég held að það sé í anda stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að hafa opnari og gagnsærri stjórnsýslu og mundi krefjast ákveðins aga. Mikið var rætt innan þingmannanefndarinnar að gera þetta opinbert. Ég fagna því hvernig það er tekið fram í 7. gr. að niðurstöður skuli færðar í fundargerðir, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra, auk þess sem greint skuli frá umræðuefni ef ekki verður á því formleg niðurstaða og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra. Ég tel að það eigi að vera hægt að gera þetta á þann máta að ekki þurfi að binda hendur ráðherra og takmarka þá pólitísku umræðu sem getur verið nauðsynleg. Ef menn þurfa að spjalla saman er það hægt, jafnvel fyrir utan formlega ráðherrafundi sem eru til þess að taka ákvarðanir og ljúka málum.

Varðandi 11. gr. er verið að koma til móts við ábendingar þingmannanefndarinnar um samráð oddvita og þær áhyggjur sem við höfum af núverandi ríkisstjórn yfir hve dugleg hún hefur verið að skipa ráðherranefndir. Það var líka gert í aðdraganda hrunsins. Enginn sérstakur lagarammi eða umgjörð hefur verið utan um þessar nefndir. Við lögðum hins vegar áherslu á að það þyrfti að formfesta hefðina í íslenskum stjórnmálum um slíkt samráð af því að við höfum ekki verið með einn flokk í meiri hluta heldur höfum við yfirleitt verið með tvo, jafnvel þrjá og stundum fjóra flokka í ríkisstjórn. Hér er talað um að ráðherra taki mál upp í ráðherranefnd. En hvað um óformlegt samráð? Á ekki að taka það upp á ríkisstjórnarfundi? Ég mundi líka vilja velta því upp.

Stóra málið er II. kafli, um skipun ráðherra og verkaskiptingu á milli þeirra. Það er greinilega mikill ágreiningur um það fyrirkomulag. Umræðan hefur að mínu mati einkennst mjög mikið af ákveðnu vantrausti og greinilegum ágreiningi á milli manna í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þá vil ég bera upp þá hugmynd sem ég ræddi áðan, um hvort bæta ætti í lögin þegar búið er að taka ákvörðun um ráðherra, eins og við þekkjum innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópuþingsins og þeir þekkja sem hafa horft á C-SPAN í Bandaríkjunum, að skipan hans færi fyrir fagnefndir og síðan þyrfti formlegt samþykki í þingsal af meiri hluta Alþingis. Er það eitthvað sem við getum mögulega gert? Ef menn eru ekki tilbúnir til þess gæti komið ákvæði inn í 6. gr. sem segði hreinlega að 2/3 ríkisstjórnarinnar yrðu að samþykkja að færa verkefni á milli ráðuneyta eða að ákvörðun um að færa verkefni á milli ráðuneyta yrði að vera samhljóða. Ég held að það þurfi einhvern veginn að finna út úr þessu. Það hefur alveg sýnt sig, t.d. núna síðast þegar verið var að samþykkja nýjustu framkvæmdastjórana í framkvæmdastjórn Evrópuþingsins, að það skiptir mjög miklu máli að viðkomandi ráðherrar viti um hvað þeir eru að tala. Það kom í ljós að einn ráðherrann var gjörsamlega óhæfur til að gegna starfinu og tilnefning viðkomandi var því dregin til baka. Þar liggur rökstuðningurinn.

Ég minni líka á frumvarp hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og tiltölulega samhljóða frumvarp hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem segja að þegar þingmenn verða ráðherrar eigi þeir að víkja af þingi. Því teldi ég mjög eðlilegt (Forseti hringir.) að í þinginu færi fram umræða um hvort viðkomandi ætti að verða ráðherra eða ekki.