139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með fyrra andsvar mitt þar sem ég nefndi einmitt að ég teldi að hluti af því að tryggja aðskilnað milli framkvæmdar- og löggjafarvaldsins sé að taka upp þá aðferðafræði sem er til dæmis til staðar í Svíþjóð þar sem menn sitja ekki á þingi meðan þeir gegna ráðherraembættum. Í framhaldi af frumvörpum sem hafa verið lögð hér fram hafa líka komið ábendingar um að það væri mjög mikilvægt að styrkja stjórnarandstöðuna á móti til að tryggja að ekki komi hérna inn 10 nýir varamenn sem yrðu þá stjórnarliðar en stjórnarandstaðan væri enn þá með sama fjölda og síðan væru ráðherrarnir fyrir utan það. Eins og ég nefndi var ein af hugmyndunum sú að stjórnarandstaðan tæki í auknum mæli að sér formennsku í nefndum. Það þekkist held ég í mjög mörgum löggjafarþingum. Samkvæmt dönsku stjórnarskránni getur minni hluti þings þar líka vísað umdeildum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er það bindandi niðurstaða.

Þetta væri að mínu mati mjög stórt skref í að styrkja löggjafarvaldið og jafnvel framkvæmdarvaldið um leið.

Í greinargerðinni með þessu frumvarpi er sérstaklega vísað til 15. gr. stjórnarskrárinnar um þetta fyrirkomulag. Samkvæmt stjórnarskránni er það forseti sem deilir verkum milli ráðherra. Þá getur maður náttúrlega líka velt upp spurningunni: Getur verið að í þessu tilviki hafi löggjafarvaldið farið inn á verksvið framkvæmdarvaldsins? Mörk á milli þessara tveggja sviða hafa verið mjög óskýr í báðar áttir. Það hefur verið mikil tilhneiging innan þings til að vilja skipta sér mjög mikið af því sem framkvæmdarvaldið gerir — og öfugt.