139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hann heitir Björn, sá sem skrifaði frumvarpið, en ég veit heldur ekki til þess að ísbjörn hafi skrifað það. En það er akkúrat þetta sem við erum að tala um, sá fáránleiki sem birtist á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu frumvarpi. Ef maður les dv.is í dag sér maður einn aðila, hv. þm. Þráin Bertelsson, kominn opinberlega í stjórnarandstöðu við hæstv. ráðherra Jón Bjarnason. Hæstv. ráðherra Jón Bjarnason styður ekki þetta frumvarp þannig að þetta er orðin endalaus garnaflækja og maður skilur hvorki upp né niður í þessu máli lengur.

Hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni varð það á að breyta hér bréfum frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eins og ég kom inn á áðan. Ég spyr þingmanninn á ný: Er þetta ekki akkúrat dæmi um það að hér séu nafnlausir ráðherrar, og ráðuneyti án heitis, til að hæstv. forsætisráðherra geti farið með þetta Stjórnarráð sitt (Forseti hringir.) eins og henni einni sýnist og lama þar með (Forseti hringir.) bæði önnur ráðuneyti (Forseti hringir.) og aðra ráðherra?