139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ef sá ísbjörn sem gekk hér á land nýverið skrifaði þetta frumvarp þarf ekki að hafa áhyggjur af að fleiri slík frumvörp komi úr þeirri áttinni.

Mig langar að koma inn á eitt sem tengist þessu máli og hefur verið töluvert til umræðu, það að mikið er talað um að þetta frumvarp sé einhvers konar afurð rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannanefndarinnar sem var skipuð til að fjalla um hana. Nú hefur það komið fram í umræðunni í dag að skilja mætti af máli formanns þingmannanefndarinnar að þarna væru menn að skreyta sig með stolnum fjöðrum, að þetta frumvarp gengi í veigamiklum atriðum þvert gegn því sem þingmannanefndin setti fram í máli sínu. Þetta var síðan staðfest af hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að þegar niðurstaða þingmannanefndarinnar er sú að kalla eftir aukinni valddreifingu og minna oddvitaræði geti það ekki falið það í sér að svona vald sé flutt frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar. Það er meginþátturinn og stóri punkturinn í þessu frumvarpi.

Hvernig sér hv. þingmaður frumvarpið fyrir sér í ljósi þessa og þess að það er núna komið til þingsins í ágreiningi? Það er ekki meiri hluti meðal stjórnarflokkanna um málið. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér og í fjölmiðlum að hún treysti á að stjórnarandstaðan styddi þetta mál. Í það minnsta enn sem komið er hefur enginn í stjórnarandstöðunni talað sem styður málið eins og það er fram komið, enda gengur það þvert gegn því sem þingmannanefndin setti fram á sínum tíma.

Sér hv. þingmaður fyrir sér að mögulegt sé að vinna úr þessu máli með einhverjum hætti í allsherjarnefnd og koma aftur inn í þingið með þetta frumvarp? Er ekki nauðsynlegt að umbylta því og koma með nýtt frumvarp hvað þetta snertir?