139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það horfir allt til betri vegar, vænti ég, með þessa blessuðu ísbirni sem ganga hér á land, í það minnsta stendur yfir fjársöfnun þessa dagana frá einu stjórnmálaafli sem bauð fram í Reykjavík við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Ég veit ekki hvernig menn ætla að fara að því, ég hefði álitið að þeim fjármunum sem þar söfnuðust væri betur varið til velferðarþjónustu í borginni en þess að útbúa búr fyrir villta skepnu.

Varðandi það mál sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason leggur hér upp, og ég þakka honum fyrir spurningarnar að því leytinu til, vil ég segja að einn angi þeirrar ömurlegu birtingarmyndar sem þessi umræða hefur á sér hér er að þingmenn úr þingmannanefndinni sem skilaði þessum þingsal tillögu sinni — og hún var samþykkt með 63 atkvæðum, samhljóða, og eru fá fordæmi fyrir slíkri afgreiðslu hér — standa nú frammi fyrir því að einungis einn þingmaður úr þeirri nefnd sem hér hefur tekið til máls er hallur undir sjónarmið hæstv. forsætisráðherra með frumvarpinu. Enginn þingmanna sem tekið hefur til máls sem sat í þeirri nefnd sem kölluð er þingmannanefndin hefur tekið undir þau sjónarmið. Það er eitthvað að í samskiptum okkar hér inni við framkvæmdarvaldið þegar málið ber að með þessum hætti.

Ég hef fulla trú á að þingið geti bætt þetta frumvarp svo vel verði, en miðað við það hvernig umræðan liggur hér og hefur legið gengur þetta frumvarp ekki óbrjálað í gegn, það er alveg ljóst, og sérstaklega það sem lýtur að þeim atriðum sem hér hafa verið hvað umdeildust og snerta þær meginbreytingar sem þetta frumvarp kallar á.