139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé bara vel til fundið að veita því einhverja fjármuni að fá búr til að loka þetta ísbjarnardýr inni því að það kemur þá ekki með fleiri frumvörp í þessa veruna.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þingmanns og snýr að frumvarpinu frá hæstv. forsætisráðherra sem borið er við að sé lagt fram til þess að uppfylla kröfur þingmannanefndarinnar langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort ekki sé ástæða til að hafa töluverðar áhyggjur af því hvernig okkur hér, framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu, gengur að vinna úr niðurstöðum þingmannanefndarinnar þegar þetta er raunin, þegar við fáum frumvarp hér inn sem gengur í mjög veigamiklum atriðum þvert á það sem þingmannanefndin lagði fram. Til hvers vorum við í allri þessari vinnu í þingmannanefndinni?