139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil svara hv. þingmanni því að ég er ekki úrkula vonar um að Alþingi Íslendinga geti unnið úr þeim tillögum sem þingmannanefndin skilaði af sér og þingið samþykkti hér með 63 samhljóða atkvæðum. Það er hrein uppgjöf að ljá máls á því að við ráðum ekki við það verkefni en til þess þarf þingið að taka frumkvæði og vinna að framkvæmd þessarar tillögu á eigin forsendum. Það höfum við því miður ekki gert.

Ég neita að gefa út þá yfirlýsingu sem mér fannst hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hálfpartinn ýta undir, að við værum að gefast upp á þessu verkefni. Ég tel það alls ekki útilokað. Það væri illa komið fyrir Alþingi Íslendinga ef við réðum ekki við það verk, en það kallar á að þingmenn stilli saman strengi sína.