139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að leitast sé við það að einhverju marki í frumvarpinu að svara tillögum þingmannaskýrslunnar. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þetta andsvar og þátt hans í þeirri umræðu sem hér hefur staðið, því að hann hefur vakið máls á ýmsum góðum þáttum sem eru fyllilega þess virði að vera ræddir og krufnir til mergjar í meðförum þingsins við þetta frumvarp.

Hann nefnir hér töluna tíu, hún er góð og gegn og skemmtileg tala og getur minnt menn á margt, en ég er þeirrar skoðunar að hún sé í sjálfu sér ekkert hámark. Ég tel að eins og frumvarpið er úr garði gert geti ráðuneytin verið miklu færri en þau mega mín vegna vera miklu fleiri ef menn kjósa svo og hafa til þess fjármuni og skipuleggja starfið með þeim hætti að það skili því sem til er ætlast. Hins vegar væri miklu æskilegra að hafa þá tengingu á bak við frumvarpsgreinina sem hér er lögð fram að maður sæi hvers vegna þetta er gert en það er því miður ekki.

Varðandi spurninguna um hvort þetta samræmist þeim áherslum sem við höfum verið með í fjárlaganefnd um bætt fjárlög þá snúa þær fyrst og fremst að verklaginu, en ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður kom fram með varðandi lokafjárlögin. Allir þingmenn eru sammála um að sú vinna sé ekki nægilega góð og við eigum að gera betur en af einhverjum ástæðum, hvernig sem á því stendur, hefur okkur ekki auðnast að gera þær breytingar á henni sem nauðsynlegar eru.