139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að hæstv. forsætisráðherra er ekki lengur viðstödd umræðuna. Ég get ekki heldur séð að hv. formaður allsherjarnefndar sé hér viðstaddur og ekki varaformaður allsherjarnefndar. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort það séu skýringar á því að þessir ágætu þingmenn og ráðherrar séu ekki viðstaddir þessa umræðu, sem ég hefði haldið að væri vel við hæfi og samkvæmt hefðum og venjum að ráðherrar og í það minnsta formenn nefnda sem málið tilheyrir séu við umræðu af þessu tagi. Að minnsta kosti var það eitt af því sem okkur nýliðunum var bent á og kennt þegar við komum til þings. Ég er fyrst og fremst að óska skýringa á því hvers vegna þetta háttalag er á hlutunum.