139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur kærlega fyrir hennar góðu ræðu, efnismikla og fína, og gaman að sjá hve vel hún er að sér í málunum af því að nú er hún varaþingmaður en er fullgild meðal okkar meðan hún situr hérna á þingi.

Þingmaðurinn fór í ræðu sinni nokkuð yfir skrýtin vinnubrögð hjá Stjórnarráðinu undir forustu hæstv. forsætisráðherra varðandi þessa kynningu sem var raunverulega ekki kynning heldur átti kynningin sér stað inni í einhverju embættismannakerfi, í einhverri kratískri kúlu sem hæstv. forsætisráðherra virðist vera búin að koma sér upp. Hvernig virka slík vinnubrögð á þingmanninn? Vegna þess að nú er talið að þetta sé ríkisstjórnarmál og hæstv. forsætisráðherra talar þannig þrátt fyrir að allir viti að einn hæstv. ráðherra fylgi ekki málinu. Hvernig upplifir þingmaðurinn þessi vinnubrögð þar sem hún er ný á þingi?