139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að glöggt er gests augað og það sannar sig akkúrat í svari hv. þm. Írisar Róbertsdóttur.

Mig langar aðeins til að koma inn á 8. gr. því að á bls. 42 er umfjöllun um hana. Þar er verið að fjalla um að ráðherrar skuli leitast við að samhæfa stefnu sína og tala saman þegar málefni skarast og hafa mikla samvinnu. Verið er að reyna að stíga það skref að hafa mikið samráð í gangi.

Gott og vel, það er fínt að gott samkomulag sé í ríkisstjórninni og allt gott um það að segja. En þegar enginn einn ráðherra ber ábyrgð á málaflokki og allir halda að einhverjir aðrir beri ábyrgð á málaflokknum, út af því að nú mega ráðuneytin ekki heita neitt og ekki ráðherrarnir heldur samkvæmt þessum lögum, er þá ekki mikil hætta á því að mati þingmannsins að þarna fari einhverjir hlutir í gegn og uppistaðan sé kannski sú (Forseti hringir.) að enginn ráðherra telji sig bera ábyrgð á þeim atburðum sem gætu og (Forseti hringir.) kynnu að geta gerst?