139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma inn á þetta vegna þess að ég er ósammála því hvernig hv. þingmaður talar um samráð. Það er einfaldlega vegna þess að við erum ekki sammála og mig langar aðeins til að koma inn á það. Frumvarpið er undirbúið með sérfræðingum, það er vel undirbúið, það kemur fram á bls. 6 frekar en 7.

Ég sé ekkert athugavert við það að ríkisstjórnin leggi fram þetta frumvarp, forsætisráðherra leggi fram frumvarpið og það verði rætt í nefndum þingsins. Ég kalla það samráð við stjórnarandstöðuna eða við þingmenn. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að frumvörpum sé breytt mikið eða lítið í nefndum þingsins. Ég tel að það sé starf alþingismanna.