139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

kauphækkanir og hagvöxtur.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það virðist sem í dag eða í síðasta lagi næstu daga verði gengið frá kjarasamningum. Nú er aðeins byrjað að spyrjast út á hvaða grundvelli samningarnir eru gerðir og þótt þeir liggi ekki fyrir er Seðlabankinn farinn að tjá sig um þann ramma sem menn eru að ræða um. Seðlabankinn hefur sagt að svo virðist sem menn séu að fara út í kauphækkanir næstu árin sem geti mögulega kallað fram verðbólguáhrif sem muni mögulega leiða til þess að Seðlabankinn neyðist til að hækka vexti og að sú hætta sé raunveruleg að kauphækkanirnar sem um er rætt brenni upp á báli verðbólgunnar. Það er eitt sem getur komið í veg fyrir að þetta gerist, það að okkur takist að skapa hagvöxt sem leggi grundvöll undir þær kauphækkanir sem menn ræða um.

Sjálfur Seðlabankinn hefur spáð því að hagvöxtur verði undir því sem getur réttlætt þær tölur sem menn hafa rætt, þ.e. allt að 13% launahækkanir á þremur árum, en það er óhætt að segja að sé þetta svona og fari samningarnir með þeim hætti sem lýst hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu sé boltinn að fara í fangið á ríkisstjórninni.

Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hún sé sammála því mati Seðlabankans að samningarnir kunni að leiða til aukinnar verðbólgu og þar af leiðandi til vaxtahækkunar. Er hún sammála því að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að kauphækkanir muni ekki skila sér í auknum kaupmætti launþeganna? (Forseti hringir.) Síðast en ekki síst, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að hækka hagvaxtarspár inn í framtíðina?