139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

kauphækkanir og hagvöxtur.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum auðvitað sammála um það, við hv. þingmaður, að það veltur á því að við getum náð hagvextinum upp og komið hjólum atvinnulífsins til að snúast, náum því að verðbólguáhrifin verði þó ekki meiri en ég nefndi. Það sem verulegu máli skiptir er að kaupmátturinn aukist þetta mikið, um 6–8% á meðallaunum og að lægstu launin hækki enn þá meira. En það skiptir auðvitað máli að sú áætlun gangi eftir sem og sú yfirlýsing sem ríkisstjórnin hefur gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Að því verður auðvitað róið öllum árum. Við erum ekki bara að tala um þessi fjárfestingaráform sem ég nefndi áðan, heldur verður ríkisvaldið með verulega innspýtingu að því er varðar opinberar framkvæmdir. Núna er gert ráð fyrir 21 milljarði í opinberar fjárfestingar í fjárlögum og um 13 milljarðar bætast við í þeim yfirlýsingum sem fylgja þessum kjarasamningum. (Forseti hringir.) Þetta verður væntanlega allt saman kynnt í dag og þá munu hv. þingmaður og þingheimur allur sjá að ríkisstjórnin hefur lagt verulega til þessara mála.