139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

endurútreikningur lána.

[10:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Strax og Alþingi fór að vinna með frumvarp um endurútreikning lána hafði ég áhyggjur og þegar það var komið í lokaumræðu hafði ég margítrekað lýst yfir þeim áhyggjum mínum að lagatextinn væri alls ekki nógu skýr. Það kom fram í vinnu nefndarinnar að þingmenn sem sátu í viðkomandi nefnd höfðu mismunandi skilning á því nákvæmlega hvernig ætti að reikna þessi lán.

Í framhaldi af því óskaði ég sérstaklega eftir fundi með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem ég lagði mikla áherslu á að það kæmu skýr fyrirmæli frá ráðuneytinu í samræmi við þá reglugerðarheimild sem var í lögunum um það hvernig ætti að reikna þessi lán. Síðan leið og beið og það liðu tveir mánuðir þar til sett var reglugerð um að umboðsmaður skuldara hefði ákveðið eftirlitshlutverk með þessum endurútreikningum. Nú berast hins vegar svör við fyrirspurn eftir ábendingar utan úr bæ um að það sé töluverður munur á niðurstöðum milli fjármálafyrirtækja. Umboðsmaður skuldara hafði fyrst sagt að svo væri ekki en eftir að hafa kallað eftir sambærilegum dæmum frá fjármálafyrirtækjunum hefur nú komið í ljós að það er töluverður munur á milli niðurstaðna fjármálafyrirtækjanna. Í framhaldinu hafa verið sendar fleiri spurningar um það hvernig þessi lán séu meðhöndluð.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé sáttur við vinnubrögð sín í þessu máli. Hver er ástæðan fyrir því að ekki var sett reglugerð strax með aðferðafræðinni um það hvernig ætti að reikna þessi mál? Hvað hyggst ráðherrann nú gera til að bæta úr? Þetta er stórmál fyrir íslensk heimili og við getum ekki staðið svona að (Forseti hringir.) þessum hlutum.