139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

endurútreikningur lána.

[10:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Með lögunum sem sett voru í desember sl. var kveðið á um endurgreiðslu til handa tugum þúsunda heimila. Það lá alltaf fyrir að það tæki tíma og fjármálafyrirtækjunum var gefinn ákveðinn tími til að vinna þá útreikninga. Mjög mikilvægt er að taka ekki ábyrgðina af fjármálafyrirtækjunum í að standa skil á greiðslunni. Það er þeirra verkefni og óþarfi að ríkisvæða það verkefni að öllu leyti. Í lögunum var sett fram skýr regla um hvernig ætti að reikna. Síðan var umboðsmanni skuldara falið að hafa eftirlit með útreikningunum. Tíminn rann út sem fjármálafyrirtækin höfðu haft, umboðsmaður skuldara hefur verið að kanna stöðuna og telur að það séu einhver brögð að einhverjum mismun en að hann sé ekki mjög verulegur. Umboðsmaður skuldara er enn þá að vinna málið, ræða það við fjármálafyrirtækin og hefur ekki komið með tillögur til okkar um úrbætur en um leið og tillögur berast munum við að sjálfsögðu bregðast við þeim. Aðalatriðið er að við höfum tryggt með þessari löggjöf að tugþúsundir heimila hafa fengið endurreikning á lánum sínum og fengið þann endurreikning fram. Það verður að sjálfsögðu gengið eftir því að sá endurútreikningur sé réttur ef það eru einhver vanhöld á því en eins og málið liggur núna er embætti umboðsmanns skuldara, sem fer auðvitað með eftirlitið í málinu, enn þá að vinna í málinu með fjármálafyrirtækjunum. Það er mikilvægt að það embætti fái tækifæri til að leiða það til lykta og við skulum sjá hverju það skilar okkur.