139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

eftirlit með kreditkortafærslum.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég rakst á bloggfærslu hjá Jóni Magnússyni lögmanni sem ég verð að viðurkenna að mér fannst frekar ótrúleg þegar ég las hana. Lögmaðurinn upplýsti að í Seðlabankanum er fylgst með öllum kreditkortafærslum landsmanna ef þær eru í erlendri mynt. Þetta hljómar eins og lýsing á STASI í Austur-Þýskalandi. Ef einhver hefur haft áhyggjur af því að stóri bróðir sé að verða umfangsmikill held ég að ekki sé hægt að finna neitt skýrara dæmi en þetta. (Utanrrh.: Davíð setti þetta á.)

Virðulegi forseti. Ég fletti því þess vegna upp til að kanna hvort þetta gæti verið rétt. Og þetta er rétt, og þetta er algjörlega án tillits til upphæðarinnar. Þegar hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson kaupir The Economist sem hann gerir örugglega í gegnum kreditkortið sitt verður fylgst gaumgæfilega með honum og öðru því sem fært er. (Gripið fram í.) Í öllum opinberum heimsóknum hæstv. utanríkisráðherra er væntanlega fylgst vel með kreditkortinu hans af starfsmönnum í kjallara Seðlabankans.

Ég vildi spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, því að þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, hvort hæstv. ráðherra sé sáttur við að málum sé svona fyrirkomið og hvort hann telji virkilega málefnaleg rök fyrir því að fylgjast með landsmönnum með þessum hætti. Þrátt fyrir að uppleggið sé að fylgjast með að gjaldeyrishöftin séu framkvæmd held ég að hver maður sjái að það stenst ekki (Forseti hringir.) neina skoðun.