139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

eftirlit með kreditkortafærslum.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef ekki lesið þessa bloggfærslu og kem því nokkuð af fjöllum hvað varðar fyrirspurnarefnið að öðru leyti en því sem fram kemur í fyrirspurninni sjálfri. Í framhaldi af því að hér voru sett gjaldeyrishöft þurfti að setja upp eftirlitskerfi til að hafa eftirlit með þeim. Jafnvíðtæk gjaldeyrishöft og við höfum í gildi standast ekki nema að með þeim sé haft eftirlit. Það er líka ljóst að undanskotshættan er umtalsverð, jafnvel í litlum fjárhæðum, og skapast þá veruleg hætta á að menn brjóti stærri fjárhæðir niður í smáar og komist þannig fram hjá gjaldeyrishöftunum.

Núna stefnum við að því að hefja það ferli að létta á gjaldeyrishöftunum. Það verður ekki auðvelt en því verður líka að fylgja fullvissa þess að farið sé eftir þeim að öllu leyti að því marki sem þau verða áfram höfð í gildi. Undanskotsfreistingin eykst eftir því sem slakað verður á í gjaldeyrishöftum. Það er gömul saga og ný í öllum löndum sem hafa þurft að reiða sig á gjaldeyrishöft. Allt á þetta hins vegar að vekja okkur til umhugsunar um það hversu skynsamlegt það er að þurfa að reiða sig á gjaldeyrishöft með þeim hætti sem við þurfum og vekja hjá okkur efasemdir um að gjaldmiðill sem þarf að styðjast við gjaldeyrishöft sé raunveruleg stoð fyrir íslenskt efnahagslíf til lengri tíma litið.