139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

eftirlit með kreditkortafærslum.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og stundum áður er eina lausn hæstv. ráðherra á hinum ýmsu vandamálum Evrópusambandið og evran, en ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga þetta í fullri alvöru. Það er eitthvað mikið að ef málum er svona fyrirkomið. Hæstv. ráðherra getur kynnt sér úrskurð og ákvörðun Persónuverndar frá 3. mars 2010 þar sem þetta er allt saman rakið og ég held að eðlileg nálgun hjá hæstv. ríkisstjórn væri að menn endurskoðuðu persónunjósnirnar í Seðlabankanum. Ég held að það sé hin eðlilega nálgun. Það er nokkuð sem við getum ekki og eigum ekki að búa við, persónunjósnir um venjulega Íslendinga sem eru ekki að gera annað en að eiga eðlileg viðskipti.