139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

afturvirkni laga.

[10:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á mál sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur vakið athygli á. Það snýr að afturvirkni laga en ég vil fyrst segja að það er áhyggjuefni þegar við hlustum á svör hæstv. ráðherra við þeim fyrirspurnum sem hér eru bornar upp.

Spurningin til hæstv. forsætisráðherra lýtur að því hvort afturvirkni laga geti einhvern tímann átt rétt á sér: Getur afturvirkni laga einhvern tímann átt rétt á sér og þá í hvaða tilvikum? Tilefnið er frétt sem birst hefur á Pressunni um að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var í stjórnarandstöðu, hafi vakið athygli á því 2003 að verið væri að brjóta lög með því að láta lög gilda afturvirkt. Síðan kemur í ljós að það sama gildir um þau lög sem samþykkt voru í desember sl. Því er áhugavert að vita hug forsætisráðherra til þess hvort það sama eigi við 2010 og 2011 og var 2003 þegar hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hv. þingmaður, gagnrýndi það sem þá var gert. Það hlýtur að vera áhyggjuefni ef það er ekki tekið mark á athugasemdum sem komu klárlega fram þegar þessi gagnrýni kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Nú er svo komið, eftir því sem ég best veit, að búið er að kæra þetta mál eða vísa því til umboðsmanns Alþingis.