139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:21]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Grundvallaratriði í þessu máli öllu er að Vestmannaeyingar sitja nú uppi með mun verri samgöngur en áður en ráðist var í þær miklu samgöngubætur sem Landeyjahöfn átti að vera og felast í Landeyjahöfn. Þetta eru góðar samgöngur þegar þær virka.

Ofan á lokun hafnarinnar bætist að ríkisstyrkt áætlunarflug var aflagt, reglubundnu flugi á Bakkaflugvöll var hætt og þjónusta Herjólfs á Þorlákshafnarleiðinni er mun verri en áður. Við þessu ófremdarástandi verða samgönguyfirvöld að bregðast með miklu ákveðnari og skilvirkari hætti en verið hefur til þessa.

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að hann ræður ekki við náttúruöflin en hann hefur heilmikið um það að segja hvernig brugðist er við þeim og lifað með þeim. Lífið í landinu í gegnum aldirnar hefur einmitt að mestu gengið út á slíka aðlögunarhæfni en ekki uppgjöf.

Hér eru ekki bara í húfi þær almennu forsendur fyrir byggð, og mér liggur við að segja mannréttindi, sem felast í viðunandi samgöngum. Ýmsir aðilar í Vestmannaeyjum treystu á þau fyrirheit sem gefin voru um bættar samgöngur og fjárfestu í þeim greinum sem helst áttu að dafna vegna þeirra, svo sem ferðaþjónustu og veitingarekstri. Allt þetta er í uppnámi.

Virðulegi forseti. Stjórnvöld verða einfaldlega að svara þeim spurningum sem brenna á fólki og marka einhverja stefnu sem mark er á takandi. Á að sjá til þess að Landeyjahöfn haldist opin árið um kring eða er henni ætlað að vera bara einhvers konar sumarhöfn? Verða styrkir til reglubundins áætlunarflugs til Eyja teknir upp að nýju í ljósi aðstæðna? Þessum spurningum þarf að svara, hæstv. innanríkisráðherra, og best er að svarið verði það svar sem lofað var í upphafi: Já, við ætlum að sjá til þess að höfnin haldist opin árið um kring, já, framkvæmdin verður kláruð, (Forseti hringir.) já, það á að fara í smíði nýs Herjólfs.